Bransadagur tæknifólks í Hörpu 8. janúar
Fagfólk í tæknimálum, lýsingar-, hljóð og myndlausnum auk sérfræðinga í sviðstækni, kvikmyndagerð og sjónvarpsframleiðslu koma saman á bransadeginum sem haldinn verður í fyrsta sinn 8. janúar næstkomandi í Hörpu.
Mikið er lagt upp úr dagskránni þar sem sérfræðingar á heimsmælikvarða flytja erindi um nýjungar í tæknimálum.
Umræðuefni verða meðal annars gervigreind í hljóð- og ljósastýringu, andleg heilsa í geiranum og mikilvægi þess að auka fjölbreytni og jafna hlutfall kynja meðal tæknifólks.
Dagskráin er hér.
Meðal fyrirlesara eru:
- Lýsing gengur út á litróf – en hvar er fjölbreytileikinn hjá tæknifólki?
Tim Routledge er margverðlaunaður lýsingarhönnuður sem sérhæfir sig í beinum útsendingu og upptökum, tónleikum og stórviðburðum. Tim hefur meðal annars hannað lýsingarheim fyrir Beyoncé, Jennifer Lopez, Sam Smith, Spice Girls, Take That, ELO, Stormzy og fleiri. Hann var á bak við lýsinguna fyrir Eurovision-keppnina í Bretlandi á þessu ári auk sjónvarpsþátta á borð við X-Factor. Þá sér hann um ljósahönnun á árlegri gamlárshátíð í London Eye.
- Gervigreind: Til gagns eða glötunar? Gervigreind er að breyta heiminum, en hvernig?
Pétur Eggerz er tæknistjóri (CTO) og meðstofnandi Overtune þar sem hann leiðir vöruþróun með áherslu á gervigreind. Pétur framleiddi meðal annars umdeilda djúpfalsaða atriðið í áramótaskaupinu. Í erindinu fer hann yfir þróun gervigreindarlíkana Overtune með tilliti til raunverulegs notagildis, auk þess að velta upp bæði siðferðislegum og lagalegum þáttum.
- Að skapa betri menningu í átt að geðheilbrigði og vellíðan baksviðs
Mig Burgess Walsh er ljósatæknir, meðstjórnandi, trúnaðarmaður Félags breskra leikhústæknimanna (ABTT) og trúnaðarmaður Backup Tech, góðargerðarfélags fyrir baksviðsstarfsmenn í skemmtanabransanum.
- Lýsum upp leiðina: menntun og inngilding í ljósatækni
Ziggy Jacobs er kerfishönnuður, sérfræðingur í ljósaforritun, hönnuður og kennari. Ziggy hefur brennandi áhuga á menntun og aukinni þekkingu á tæknigreinum. Hún er talsmaður fjölbreytileika kynja og sveigjanleika innan bransans og leggur áherslu á mikilvægi stuðnings við foreldra og fjölskyldur innan tæknigeirans.
- Sjálfbærni og fjölbreytileiki
Rósa Dögg Þorsteinsdóttir er ljósahönnuður og stofnandi Ljósark. Hún fjallar um sjálfbærniviðmið og orkuskipti í viðburða- og sviðslýsingu. Sýnd verða dæmi um sjálfbærniviðmið úr nýlegu útboði hreyfiljósa í Hörpu auk þess sem kynntur verður hvetjandi og alþjóðlegur stafrænn vettvangur, Women in Lighting, sem miðar að því að auka sýnileika kvenna sem starfa á sviði ljósa og lýsingarhönnunar.
Bransadagurinn er einstakt tækifæri fyrir tæknifólk að hittast, deila fróðleik og fræðast um nýja tækni. Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús, Rafmennt og Félags tæknifólks hafa veg og vanda að deginum og dagskránni. Styrktaraðilar eru Luxor, Atendi og Exton.
Nánari upplýsingar veitir Hildur Ottesen markaðs- og kynningarstjóri Hörpu í síma 856-6114.